dalvíkurbyggð

Fyrsti íslenski viðarhitaði brauðofninn

Nýtt áhugavert verkefni er nú unnið að í Dalvíkurbyggð, nánar tiltekið á Böggvisstöðum í Svarfaðardal.  Þar er nú er verið að smíða fyrsta íslenska viðarhitaða brauðofninn.  Þetta verður gullfallegur handsmíðaður steinofn, hitaður upp með íslensku timbri og bakar súrdeigsbrauð úr lífrænu korni frá Frakklandi á Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Að verkefninu standa Mathias Spoerry og Ella Vala Ármannsdóttir.

Mathias er söngvari að mennt og með meistaragráðu í miðaldatónlist. Hann kemur frá Frakklandi og hefur búið á Íslandi í fimm ár. Ella Vala er tónlistarkennari og hefur starfað við tónlist. Þau hafa sett á stað söfnun á Karolinafund til að fjármagna byggingu ofnsins að hluta til, en þau þurfa að safna tveim milljónum króna en ofninn kostar um 3 milljónir.

Framkvæmdir og breytingar á húsinu á Böggvistöðum verða gerðar eftir að byggingu ofnsins líkur með lánveitingu.

Búið er að stofna Facebooksíðu fyrir þá sem vilja fylgjast með framkvæmdum, sem heitir Fyrsti íslenski viðarhitaði brauðofninn.