dalvíkurbyggð

Grátlegt jafntefli við Leikni

Dalvík/Reynir lék sinn fyrsta heimaleik í 2. deild karla í knattspyrnu um helgina gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Leikið var í Boganum á Akureyri þar sem Dalvíkurvöllur er ekki tilbúinn.

Tíðindalítið var í fyrri hálfleik og var markalaust í leikhlé. Þjálfari Dalvíkur gerði tvær skiptingar í upphafi síðari hálfleiks til að hressa upp á sóknarleikinn og komu Viktor Daði og Jóhann Örn inná fyrir Núma Kárason og Joan De Lorenzo Jimenez, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir félagið í deildinni.

Skiptingin í síðari hálfleik skilaði svo marki á 75. mínútu þegar Viktor Daði skoraði fyrsta mark leiksins og kom Dalvík/Reyni í 1-0. Rúnar Helgi og Gunnar Már voru settir inná skömmu eftir markið fyrir Steinar Loga og Borja Lopez. Allt stefndi í sigur D/R en á sjöttu mínútu uppbótartíma jöfnuðu gestirnir leikinn.

Fleiri urðu mörkin ekki og voru lokatölur 1-1 í þessum leik. Svekkjandi jafntefli hjá Dalvík/Reyni og gestirnir væntanlega sáttir með stigið. D/R er í 10. sæti eftir þrjár umferðir með 2 stig. D/R leikur næst við Tindastól , föstudaginn 24. maí á Sauðárkróki.