dalvíkurbyggð

Jarðskjálftahrinan enn í gangi

Jarðskjálftahrinan við mynni Eyjafjarðar er enn yfirstandandi. Heldur dró úr virkninni um tíma í nótt, fleiri en 700 skjálftar hafa mælst þar síðan miðnætti, flestir undir 3,0 að stærð. Síðan þá hafa bæst við stærri skjálftar af stærð 3,2 kl. 10:00 og af stærð 3,4 kl. 10:15. Í gær mældust yfir 1100 skjálftar, sá stærsti var af stærð 4,0 kl. 12:18 um 30 km NNA af Siglufirði.

Frá því að hrinan hófst 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 4500 skjálfta. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni, sá stærsti á sunnudagskvöldið kl. 19:07 af stærð 5,8 rúma 30 km NNA af Siglufirði. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði.

Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða.

Frá þessu er greint á vef Veðurstofu Íslands.