dalvíkurbyggð

Jóna Bergdal opnar sýningu í Bergi

Jóna Bergdal myndlistakona frá Akureyri opnar sýningu í Bergi Menningarhúsi á Dalvík, laugardaginn 4. ágúst.

Jóna hefur haldið fjölda einka og samsýninga hérlendis og erlendis.  Hún lauk námi í Myndlistaskóla Akureyrar árið 2003 og hefur auk þess sótt allnokkur námskeið hér heima og í Noregi til að opna fleiri víddir.  Jóna hefur fengist við ýmiskonar tækni og mikið notað akríl og olíu í sínum verkum en síðustu ár hafa vatnslitir átt hug hennar og hjarta. Það er frelsið í vatnslitunum sem heillar hana, litaflæðið og frjálsa túlkunin sem vatn og litir spinna saman.  Myndirnar hennar eru yfirleitt innblásnar af náttúrunni og umhverfinu, einnig hafa fuglar skipað nokkuð stóran sess í myndum hennar. Myndir frá Jónu hafa farið á sýningar víða og nú nýverið á sýningu í Bilbá á Spáni, Helsinki í Finnlandi og Fabriano á Ítalíu þar sem Jóna dvaldi og sótti fyrirlestra og námskeið og þangað er meðal annars sóttur innblástur fyrir þessa sýningu.