dalvíkurbyggð

KF og Dalvík með sameiginlegt lið á Reycup mótinu – Myndasyrpa

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Dalvík mættu með sameiginlegt lið í 4. flokki karla og kvenna á Reycup sem haldið er af Þrótti í Reykjavík. KF/Dalvík var með tvö lið í B-liða keppni og var drengjaliðið í C-riðli ásamt UMFG,Fjölni,Víkingi og Reyni/Víði. KF/Dalvík gerði eitt jafntefli og tapaði þremur leikjum í riðlinum. Liðið mætti svo ÍBV í dag í leik um 17.-20. sæti og tapaði liðið naumlega 2-3 eftir góða baráttu eftir að hafa lent undir. Markmaður KF/Dalvík varði meðal annars víti og átti góðan leik. ÍBV var sterkara liðið í fyrri hálfleik en KF/Dalvík kom meira inn í leikinn eftir því sem leið á seinni hálfleik og minnkuðu þeir muninn í 2-3 þegar skammt var eftir og kom smá spenna í leikinn síðustu mínúturnar. Fyrra mark KF/Dalvík kom eftir góða stungusendingu og gerði sóknarmaðurinn vel að klára færið. Strákarnir spila við Gróttu á morgun um 19.-20. sæti. Óskar Þórðarson einn af þjálfurum liðsins var líflegur á hliðarlínunni og sagði strákunum vel til um staðsetningar og stöður á vellinum, en sumir þeirra eru að spila í fyrsta sinn á stórum velli. Í 4. flokki er leikið 2×25 mínútur með stuttu hlé.

Kvennalið KF/Dalvík lék í 4. flokki í C-riðli og kepptu við Val, Fylki, Álftanes og Þrótt. Liðið lék fjóra leiki og tapaði öllum. Liðið skoraði eitt mark gegn Þrótti í leik sem endaði 3-1. Liðið leikur tvo leiki á morgun um 13.-15. sæti, fyrst við Hauka, og svo við Þór.

Mótið er frábær reynsla fyrir alla leikmenn, byrjað var að spila á miðvikudaginn og er lokadagur á morgun. KF/Dalvík var í þeirri stöðu að vera með nokkra leikmenn úr 5. flokki til að fylla í stöður og var því nokkur stærðarmunur í þeim leikjum sem strákar eru á síðasta ári í 4. flokki.

Allar myndir með fréttinni eru í eigu vefsins. Ljósmyndari: Magnús Rúnar Magnússon.