Klassík í Bergi á laugardaginn
Fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni Klassík í Bergi verða laugardaginn 29. september og eru það félagarnir Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson sem spila fyrir gesti. Á tónleikunum verður flutt fjölbreytt og blönduð dagskrá þar sem koma fyrir swing tónlist, þekktir sálmar sem þeir félgar hafa hljóðritað auk trúartónlistar þeldökkra bandaríkjamanna; svokallaðra negrasálma og spíritúala. Í öllum tilfellum gera Gunnar og Sigurður tónlistina sína með eigin útsetningum og ófyrirsjáanlegum spuna. Vænta má skemmtilegra kynninga á fjölbreyttum og skemmtilegum tónleikum þar sem samleikur byggður á tuttugu ára samvinnu er í öndvegi. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00.
Saxófónleikarinn Sigurður Flosason og organistinn Gunnar Gunnarsson hófu samstarf sitt árið 1998. Þeir héldu sína fyrstu tónleika í Hallgrímskirkju í september 1999 og fyrsta platan, Sálmar lífsins, kom út árið 2000. Hún snérist um endurútsetningar þekktra sálmalaga og spuna út frá þeim. Sálmar jólanna kom út árið 2001, en á henni voru sálmar og önnur tónlist tengd jólum tekin til skoðunar. Þriðji diskurinn, Draumalandið, kom út árið 2004, en hann hefur að geyma íslensk ættjarðarlög í spunaútsetningum dúósins. Sá fjórði, Sálmar tímans, kom ári 2010 en á honum er fjölbreytt úrval sálmalaga. Þá hefur komið út safndiskurinn Icelandic hymns (2013) en á honum eru eingöngu íslenskir sálmar af fyrri diskum Sigurðar og Gunnars í útgáfu fyrir erlenda hlustendur. Gunnar og Sigurður hafa komið fram á fjölmörgum tónleikum í öllum landshlutum, en auk þess í Þýskalandi, Danmörku, Færeyjum og Álandseyjum.