dalvíkurbyggð

Ný leikskólalóð Krílakots tekin í notkun eftir breytingar

Ný leikskólalóð Krílakots í Dalvíkurbyggð hefur verið tekin í notkun eftir glæsilegar breytingar.  Lóðin var meðal annars stækkuð og sérstakt ungbarnasvæði skilgreint næst skólahúsinu. Leikskólalóðin var hönnuð af teiknistofunni Landmótun og verktakinn sem vann verkið var Steypustöðin Dalvík.

Við hönnun á nýrri lóð var mikil áhersla lögð á að halda í landslagseinkenni svæðisins, en svæðið einkennist af hólum og lautum.

Fimmtán ný leiktæki voru sett upp, þar af tvær klifurgrindur með rennibrautum, ungbarnarólur, kofar, trampólín og stór timburbátur. Tveir sandkassar eru á svæðinu og lítill fótboltavöllur með gervigrasi. Malbikaður stígur liggur um svæðið og lýsing hefur verið bætt til muna.

Næsta vor á að leggja lokahönd á verkið, en þá verða plöntur gróðursettar og sérstakt undirlag sett á svæðið umhverfis timburbátinn.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Dalvíkurbyggðar.