Nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis
Óskar Bragason hefur verið ráðinn nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis fyrir komandi tímabil í 2. deild karla. Óskar hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis.
Óskar er með UEFA-A þjálfaragráðu og er þaulreyndur þjálfari en undanfarin þrjú tímabil hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks KA. Dalviksport.is greindi fyrst frá þessu.
Óskar Bragason, sem er fæddur 1977, var leikmaður sjálfur og á 67 leiki í meistaraflokki en hann lék m.a. með KA, Vask, Nökkva og Magna á sínum ferli. Óskar á að baki 10 landsleiki fyrir u-17 Landslið Íslands.
Hann hefur lengi verið viðloðandi knattspyrnu og starfaði sem yngriflokkaþjálfari áður en hann færði sig yfir í meistaraflokk karla.
„Við erum gífurlega ánægðir með ráðninguna á Óskari Bragasyni. Óskar tikkar í öll þau box sem við fórum af stað með í þjálfaraleitina. Hann er hress og skemmtilegur karakter en fyrst og fremst veit hann haug um fótbolta og með skýra sýn á verkefnið. Við teljum hann rétta manninn í að halda áfram því góða starfi sem unnið er í kringum fótboltann í Dalvíkurbyggð“ sagði Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar.