Öruggari samgöngur í Fjallabyggð – aðsend grein frá Ingibjörgu Isaksen
Aðsend grein frá Ingibjörgu Isaksen, Formanni þingflokks Framsóknar og Alþingismanni.
Öruggari samgöngur í Fjallabyggð
Á undanförnum árum hefur Fjallabyggð staðið frammi fyrir krefjandi áskorunum tengdum veðurfari. Foktjón hefur orðið í óvæntum ofsaveðrum og úrkomumynstur virðist vera að breytast með tilheyrandi álagi á innviði. Endurteknir úrkomuviðburðir hafa leitt til flóða, nú síðast síðsumars þegar vatn flæddi inn í fjölmörg hús. Þá var Siglufjarðarvegi um Almenninga lokað í nokkra daga vegna skriðufalla og tjóns sem hlaust ef þessu mikla vatnsveðri og hættu á grjóthruni. Sprungur í veginum vegna viðvarandi jarðsigs opnuðust enn frekar. Þessi atburðarrás hefur undirstrikað mikilvægi þess að styrkja og bæta samgöngur inn í sveitafélagið, sem eru lífæð samfélagsins.
Í dag er staðan á svæðinu sú að helstu samgönguleiðir inn og út úr bæjarfélaginu eru háðar einbreiðum og úr sér gengnum jarðgöngum. Þessi göng leiða vegfarendur enn fremur um samgöngumannvirki þar sem á vetrum er viðvarandi snjóflóðahætta eða hætta á grjóthruni og aurskriðum þegar hlánar. Fyrir Fjallabyggð eru því áætlanir um endurnýjun jarðganga sérstaklega mikilvægar, enda munu þau bæta tengingar og öryggi verulega. Samgöngur á svæðinu eru ekki aðeins lífsnauðsynlegar fyrir daglegt líf íbúa heldur einnig fyrir efnahagslega þróun og öryggi. Góðar samgöngur tryggja að fólk hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu og menntun, og auðveldar aðgengi að stærra atvinnusvæði.
Mikilvægi fjármagns til undirbúnings
Undirbúningur fyrir Fljótagöng er nú þegar kominn á skrið. Fjármagn fyrir nauðsynlegar undirbúningsframkvæmdir þetta árið hefur verið tryggt en hönnun jarðgangna og undirbúningur framkvæmda er tímafrekt ferli. Veturinn verður nýttur til að kortleggja snjóalög og vonir standa til að hægt verði að framkvæma bergrannsóknir fyrir lok þessa árs. Þessi göng, sem eru á lista yfir forgangsverkefni jarðgangnaáætlunar, munu leysa eina af samgönguáskorunum svæðisins og tryggja að sveitafélagið verði ekki botnlangi á Tröllaskaga. Verkefnið hefur meðbyr sem mikilvægt er að nýta.
Nýjar leiðir til lausna – nauðsynlegar endurbætur á jarðgöngum
En betur má ef duga skal. Á sama tíma er mikilvægt að horfa til Múlaganga, sem uppfylla ekki lengur nútímakröfur jarðgangna auk þess sem þau anna á álagspunktum ekki þeirri umferð sem fer þar um. Í ljósi þess hversu langan tíma það tekur að undirbúa gangaframkvæmdir er mikilvægt forathugun fyrir ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur verði framkvæmd sem fyrst.
Öryggi í jarðgöngum
Nútíma brunavarnir í göngum eru einnig dæmi um atriði sem þarf að uppfæra til að tryggja öryggi, þar sem eldur í slíku umhverfi gæti valdið stórfelldum skaða. Í langan tíma hefur verið óskað eftir úrbótum í jarðgöngum á svæðinu og hefur Vegagerðin brugðist við eftir bestu getu, en meira þarf til. Í ljósi þess að tæplega fjórðungur vegakerfisins í jarðgöngum er á Tröllaskaga eða um 24% er mikilvægt að til staðar sé búnaður til að takast á við hverskonar vá eins og sérútbúinn bíll til björgunar og slökkvistarfa í jarðgöngum.
Það er ljóst að til að halda áfram að byggja upp sterkt og stöndugt samfélag í Fjallabyggð þarf að horfa fram á veginn og hugsa stórt. Það er nauðsynlegt að fjárfesta í varanlegum lausnum eins og jarðgöngum og öðrum innviðum sem staðist geta veður, vind og tímans tönn. Með því að tryggja öruggar og traustar samgöngur og bættar tengingar milli svæða, er grunnurinn lagður að öruggu, lífvænlegu og efnahagslega sterku samfélagi til framtíðar.
Til þessa og hér eftir mun ég halda áfram að leggja mitt á vogarskálarnar til að tryggja að íbúar Fjallabyggðar fái nauðsynlegar úrbætur í samgöngumálum.
Texti: Aðsent.