Annað

Samningur Íslands við Pfizer í höfn

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Samningurinn kveður á um 170.000 skammta til Íslands sem dugir fyrir 85.000 manns. Gert er ráð fyrir að Lyfjastofnun Evrópu veiti lyfinu markaðsleyfi í síðasta lagi 29. desember. Áætlað er að fyrstu skammtarnir frá Pfizer berist um áramót, alls rúmlega 21.000 skammtar sem duga fyrir 10.600 manns.

Líklegt er að notuð verði fleiri en ein tegund bóluefna hér á landi. Gera má ráð fyrir að bóluefnin kunni að henta ólíkum hópum með mismunandi hætti sem getur haft áhrif á forgangsröðunina, samanber reglugerð þar að lútandi. Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar, svo sem hvaða bóluefni er notað og fyrir hvaða hópa og er einnig heimilt að víkja frá forgangsröðun reglugerðarinnar ef nauðsyn ber til.

Fyrirliggjandi samningar um bóluefni fyrir 281.000 einstaklinga

Tryggðir hafa verið samningar af Íslands hálfu við tvo bóluefnaframleiðendur og sá þriðji er í burðarliðnum. Samtals tryggja þeir bóluefni fyrir rúmlega 280.000 einstaklinga.

Á vegum sóttvarnalæknis er unnið að skipulagningu og samræmingu bólusetningar á landsvísu og stefnt er að því að birta áætlun um bólusetningu í næstu viku. Í áætluninni munu m.a. koma fram upplýsingar um forgangsröðun við bólusetningu, hvar bólusetning mun fara fram þá með hliðsjón af því magni sem berst hverju sinni, skipulag innköllunar einstaklinga í bólusetningu og skráning. Þá er nú þegar farið að setja inn upplýsingar um bólusetningu á vefsíðu Covid.is og fyrirhugað er að kynna skipulag bólusetningar þar þegar áætlun liggur fyrir. Gerð fræðsluefnis fyrir heilbrigðisstarfsfólk um bólusetningu er langt komið og er fundað reglulega með umdæmis- og svæðislæknum um skipulag bólusetningar.

Unnið er að þróun á tölvukerfi til að styðja við bólusetningar. Kerfið byggir á því kerfi sem þróað hefur verið fyrir skimanir á landamærum en er núna notað fyrir nær allar COVID-19 sýnatökur hér á landi. Kerfið verður notað til að bjóða stærri hópum í bólusetningu með skilaboðum í Heilsuveru og strikamerkjum. Kerfið mun einnig styðja við utanumhald stærri og smærri forgangshópa. Áætlað er að fyrsta útgáfa kerfisins verði tilbúin til notkunar þriðjudaginn 15. desember nk.

Texti: stjornarrad.is