Skíðasvæðið á Dalvík lokar
Umsjónarmenn skíðasvæðisins í Böggvisstaðafjalli á Dalvík hafa tilkynnt um vertíðarlok. Þrátt fyrir góðan snjó og frábærar aðstæður þá er ljóst að nýjar afmarkanir frá sóttvarnarlækni eru á þá leið að ekki verður möguleiki á að opna frekar á næstu vikum. Enn eru fjöldatakmarkanir, 2 metra. reglan og notkun á sameiginlegum búnaði bönnuð sem er sú regla sem erfiðast er fyrir skíðasvæðin að framfylgja.
Lokað var á svæðinu vegna veðurs í um 30 daga í vetur. Þrátt fyrir það var opið í 70 daga sem er með því mesta miðað við hin skíðasvæðin á landinu.
Þá hefur göngubrautin verið geysi vinsæl í Dalvíkurbyggð og margir tekið upp þá iðkun í vetur, enda frábær og holl útivist.
Starfsmenn skíðasvæðisins á Dalvík verða næstu daga að ganga frá og fjarlægja allt laust úr fjallinu. Göngubrautin verður opin á meðan snjór er í brautinni eða til 30. apríl næstkomandi.