Slökkviliðsmenn ganga til góðs frá Akureyri
Um verslunarmannahelgina árið 2017 gengu starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar af göflunum og fóru Eyjafjarðarhringinn í fullum herklæðum og söfnuðu rúmlega milljón krónum. Peningarnir runnu til Hollvinasamtaka Sjúkrahúss Akureyrar sem voru að safna fyrir Ferðafóstru sem hefur heldur betur komið sér vel síðan hún var keypt og farið ófáar ferðirnar í sjúkraflugi á Íslandi.
Í ár ætla þeir að bæta um betur og hlaupa frá Slökkviliðsstöðinni á Akureyri til félaga sinna í Brunavörnum Árnessýslu, hálendisleiðina uppúr Eyjafirði.
Þetta er um 300 km hlaup í erfiðu landslagi þar sem veður getur verið óhagstætt. Um 5-6 hlauparar munu hlaupa boðhlaup og verða hlaupararnir, bílstjórar, skipuleggjendur og viðburðarstjórar úr slökkviliðum allsstaðar að af landinu.
Ekki missa af því þegar Slökkviliðsmenn ganga af göflunum um Versló. Lagt verður af stað klukkan 08:00 á föstudagsmorgun frá Slökkvistöðinni á Akureyri.