dalvíkurbyggð

Traustur rekstur Samherja á árinu 2018

„Samherji skilaði góðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2018.  Árið var að sumu leyti sérstakt fyrir okkur. Þetta er fyrsta heila árið sem Samherji gerir ekki út neinn bolfiskfrystitogara frá Íslandi. Félagið hóf rekstur með einum frystitogara og þeir hafa í gegnum tíðina gegnt veigamiklu hlutverki í rekstri okkar þannig að þetta er mikil breyting á fyrirtækinu. Sjófrystingu á uppsjávarfiski lauk einnig á árinu með sölu á Vilhelm Þorsteinssyni EA sem hefur verið eitt fengsælasta skip Íslandssögunnar”.

„Búið er að einfalda samstæðu Samherja og er þetta fyrsta árið þar sem Samherji hf. heldur einungis utan um starfsemi okkar á Íslandi og í Færeyjum. Við höfum í gegnum árin gert miklar breytingar í rekstrinum, meðal annars til að takast á við breytingar á neysluvenjum neytenda og auknum kröfum þeirra. Með árvekni höfum við haldið stöðu okkar í fremstu röð meðal sjávarútvegsfyrirtækja í heiminum.  Allt útheimtir þetta meiri vinnu og eykur álag á starfsfólk.  Við höfum tekist á við þessar breytingar saman og náð árangri. Það er ekki sjálfgefið og fyrir það er ég þakklátur,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja þegar ársuppgjör fyrir árið 2018 var kynnt að loknum aðalfundi.

Tekjur Samherja námu um 43 milljörðum króna og hagnaðurinn af rekstri nam 8,7 milljörðum. Ársreikningur Samherja er í evrum en upphæðir eru umreiknaðar í þessari umfjöllun í íslenskar krónur.

Samherji er áfram í hópi stærstu skattgreiðenda landsins og greiddu Samherji og starfsmenn um 4,7 milljarða til hins opinbera á Íslandi árið 2018.

„Við höfum haldið áfram uppbyggingu á innviðum Samherja. Nýlega var sjósettur nýr togari Útgerðarfélags Akureyringa sem fær nafnið Harðbakur. Framkvæmdir við nýja fiskvinnslu á Dalvík halda áfram af fullum krafti og stefnt er á að geta hafið vinnslu í nýju og glæsilegu hátæknihúsi á fyrsta ársfjórðungi 2020. Þá á að afhenda Vilhelm Þorsteinsson, nýtt uppsjávarskip okkar, um mitt sumar 2020. Það eru spennandi tímar framundan“ segir Þorsteinn Már.

Ársreikning Samherja hf. má nálgast hjá ársreikningaskrá á næstu dögum en hér á eftir eru lykiltölur úr rekstrinum árið 2018. Aðalfundur ákvað að 7,7% af hagnaði verði greitt í arð til hluthafa.

Heimild: Fréttatilkynning/ Samherji.is