Norðurland

Von á 720 skömmtum af bóluefni á Norðurland

Í næstu viku fær Heilbrigðisstofnun Norðurlands senda 720 skammta af Pfizer bóluefninu. Það verður nýtt til að bólusetja seinni bólusetningu hjá þeim sem fengu fyrri skammt dagana 2.-5. mars en í þeim hópi eru m.a. þeir sem eru 80 ára og eldri.

Dagana 29.-31. mars er gert ráð fyrir að bólusetja seinni bólusetningu hjá þeim sem fengu bólusetningu dagana 9.-11. mars og halda áfram að bólusetja aldurshópinn 70-79 ára en meginreglan er að bólusetja þá elstu fyrst. Stefnt er að því að klára að bólusetja árganga 1944 og 1945 og ef hægt verður þá byrjum við á árgangi 1946.

Dagana 6.-9. apríl standa vonir til að halda áfram með að bólusetja amk. árganga 1946, 1947 og 1948.

Á Akureyri fer seinni bólusetning þeirra sem fengu fyrri bólusetninguna 2. mars fram á slökkvistöðinni. Fólk verður boðað með sms skilaboðum þar sem tími og staðsetning kemur fram. Þeir sem hafa ekki farsíma og fá því ekki boð með sms eru beðnir um að mæta í seinni bólusetninguna á slökkvistöðina 23. mars milli kl. 13-15.

Á öðrum heilsugæslum á Norðurlandi fær fólk boð í bólusetningu annaðhvort með sms skilaboðum eða með símtali þar sem tími og staðsetning kemur fram.