dalvíkurbyggð

Yfirlýsing frá Samherja

Undanfarin mörg ár hefur mikið verið fjallað um ýmis málefni er tengjast starfsemi Samherja. Samherji hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki á mörgum stöðum á landinu og í heiminum. Þetta starfsfólk hefur verið í forystu við uppbyggingu eins öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og í fremstu röð í harðri samkeppni á alþjóðavísu. Bæði stjórnendum og starfsfólki hefur sviðið þessi umfjöllun og umræða um fyrirtækið og störf sín enda þykir þeim umfjöllunin hafa verið einhliða, ósanngjörn og ekki alltaf byggð á staðreyndum.

Í slíkum aðstæðum, þegar vegið er að starfsheiðri með ósanngjörnum hætti á opinberum vettvangi, þá getur reynst erfitt að bregðast ekki við. Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um samskipti fólks sem skiptist á skoðunum og ræddi hvernig best væri að bregðast við þessum aðstæðum. Þarna var um að ræða persónuleg samskipti á milli starfsfélaga og vina sem enginn gerði ráð fyrir að yrðu opinber. Það breytir því þó ekki að þau orð og sú umræða sem þar var viðhöfð voru óheppileg.

Þá hafa stjórnendur Samherja brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst að of langt hefur verið gengið í þeim viðbrögðum. Af þeim sökum vill Samherji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.