Sagan og fyrri tímar

Ekki eru nema rúm 100 ár síðan þéttbýli tók að myndast á Böggvisstaðasandi eins og Dalvíkin var jafnan kölluð. Fram að því var hér einungis að finna hlaðnar sjóbúðir, fátækleg kofatildur og önnur fyrirgengileg mannvirki tengd smábátaútgerð sem bændurnir stunduðu jafnhliða búskapnum. Að loknum róðri drógu þeir báta sína upp í fjöru því ekki var þá um neinar bryggjur eða hafnaraðstöðu að ræða. Fyrstu húsin sem fólk bjó í árið um kring voru torfbæir en fyrsta timburhúsið var byggt á Dalvík árið 1899. Það nefnist Nýibær og stendur enn. Smám saman fjölgaði húsum og árið 1909 fékk Dalvík kauptúnsréttindi. Fyrstu vélbátarnir komu til Dalvíkur árið 1906 og óx þorpið undrafljótt sem einn þýðingarmesti útgerðarbærinn á Norðurlandi. Lengi var þó hafnleysið mjög tilfinnanlegt á Dalvík og var ekki ráðist í gerð varanlegrar hafnar þar fyrr en 1939. Fram að þeim tíma var notast við trébryggjur sem máttu sín lítils þegar náttúran fór hamförum og brim eða hafís sópuðu þeim á haf út.

Á blómatíma Norðurlandssíldarinnar var oft líf og fjör í síldarsöltun á Dalvík og á tímabili var Dalvík þriðja stærsta síldarsöltunarhöfn landsins. Upphaf þéttbýlismyndunar á Árskógsströnd má rekja til síldveiða og síldarsöltunar Norðmanna sem voru hér umsvifamiklir um aldamótin 1900. Dalvík var hluti Svarfaðardalshrepps fram til ársins 1946 en þá var sveitarfélaginu skipt og Dalvík gerð að sjálfstæðu hreppsfélagi. Árið 1974 hlaut bærinn kaupstaðarréttindi og hét þá Dalvíkurbær. Árið 1998 var þessum sveitarfélögum steypt saman ásamt með Árskógshreppi og heitir síðan Dalvíkurbyggð.