Útivistarsvæði

Í Dalvíkurbyggð eru ýmis útivistarsvæði sem íbúar og gestir svæðisins geta nýtt sér.

Friðland Svarfdæla

Friðland Svarfdæla nær yfir allt votlendissvæði í neðri hluta Svarfaðardals frá sjó og fram fyrir Húsabakka. Friðlandið er elsta votlendisfriðland landsins, stofnað 1972 að frumkvæði bænda í Svarfaðardal. Þar verpa yfir 30 tegundir fugla og fleiri tegundir hafa þar viðkomu. Merktir fræðslustígar liggja frá Húsabakka niður í Friðlandið og einnig frá Dalvík umhverfis svokallaðan Hrísahöfða í mynni Svarfaðardals. Fuglaskoðunarhús eru staðsett við Tjarnartjörn og Hrísatjörn.

Fólkvangur í Böggvisstaðafjalli

Fólkvangur í Böggvisstaðafjalli er fjölbreytt útivistarsvæði en þar er að finna skíðasvæði sveitarfélagsins, skógrækt Sveins Ólafssonar og skógreitin Bögg. Búið er að leggja fjölmarga göngustíga um skógræktina og skógreitin Bögg, en í honum er einnig að finna borð og útigrill. Þá er svæðið gott til berja- og sveppatýnslu.

Sandurinn

Sandurinn er strandlengja sem liggur í austur frá Dalvík og tilheyrir Friðlandi Svardæla. Svæðið er vinsælt göngusvæði allan ársins hring og margir sem leggja leið sína eftir sandinum að árósum Svarfaðardalsár. Svæðið nefnist í daglegu tali heimamanna Sandurinn. Þaðan er gott útsýni út fjörðinn og yfir Hrísey og Látraströnd.

Hánefsstaðaskógreitur

Hánefsstaðaskógreitur er staðsettur austan megin í Svarfaðardal og er rekinn af Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Í skógreitnum er göngustígar, útigrill, snyrtingar og leiktæki. Tilvalinn áningastaður.

Brúarhvammsreitur

Brúarhvammsreitur er staðsettur á Árskógsströnd. Göngustígur er í gegnum reitinn og gaman að koma þar við í fallegu umhverfi.