Akureyri

Sérsveitin handtók æstan mann á Akureyri

Um hádegisbil í dag var lögreglan kölluð að fjölbýlishúsi á Akureyri vegna hávaða frá pari og gruns um heimilisofbeldi. Er lögreglan kom á vettvang var konan komin út úr íbúðinni en maðurinn var enn innandyra og hafði í hótunum við lögreglumenn. Maðurinn var mjög æstur og talinn vera í annarlegu ástandi. Skorað var á hann að gefa sig fram við lögreglu en hann neitaði því staðfastlega. Eftir frekari samskipti við manninn mat lögregla aðstæður þannig að ekki væri unnt að skilja hann eftir einan í þessu ástandi. Tryggja yrði öryggi hans og annarra í húsinu. Eftir árangurslausar samningaviðræður við manninn, fór sérsveit Ríkislögreglustjórans inn í íbúðina og handtók hann kl. 14:24.
Nokkur viðbúnaður var á vettvangi meðan á þessu stóð og stýrðu lögreglumenn m.a. aðgangi að húsinu. Enginn meiddist í þessari aðgerð og fer málið nú í hefðbundinn rannsóknarfarveg.
Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu.